Notkunarskilmálar

NOTKUNARSKILMÁLAR

Neðangreindir skilmálar teljast vera bindandi samningur milli Tímatals ehf., kt. 450310-0690, með lögheimili að Skipholt 11-13, 105 Reykjavík og viðskiptavina félagsins. Viðskiptaskilmálar Tímatals gilda um öll þau viðskipti sem eiga sér stað á milli Tímatals og viðskiptavina félagsins eða notenda þeirra kerfa sem Tímatal hefur skapað og/eða leigir út.

Tímatal er íslenskt bókunarkerfi, sem að gerir notendum kleift að halda utan um tímapantanir sínar, heimsóknasögu viðskiptavina og annað sem tengist daglegum rekstri þjónustufyrirtækja.

Við hjá Tímatal áskiljum okkur einhliða rétt til þess að gera allar þær breytingar sem við teljum nauðsynlegar á skilmálum þessum til þess að auka gæði þeirrar þjónustu sem við veitum. Þá munu allar stórvægilegar breytingar á þessum skilmálum vera tilkynntar viðskiptavinum okkar með hæfilegum fyrirvara.

1. Skilgreiningar

Við: Með orðunum „við”, „okkur“, eða „okkar“ í þessum skilmálum er átt við Tímatal ehf.

Viðskiptavinur: Það fyrirtæki, eða sá einstaklingur, sem greiðir fyrir þjónustu Tímatal.

Notandi: Aðili sem hefur aðgang að þjónustu Tímatals, t.d starfsmenn og eigendur sem hafa einhvern aðgang að Tímatali.

Þjónusta: Öll sú þjónusta, þær upplýsingar, þau verkfæri eða sú virkni sem að Tímatal veitir viðskiptavinum sínum, beint eða óbeint.

2. Samþykki notendaskilmála

Þegar viðskiptasamband er komið á milli Tímatals og viðskiptavina okkar gerum við ráð fyrir að þú, sem notandi eða viðskiptavinur, hafir lesið þessa skilmála og samþykkt. Þar af leiðandi telst þú, með því að nota þjónustu Tímatals, eða hluta af henni, hafa samþykkt þessa notendaskilmála.

3. Gildissvið

Undir þessa skilmála falla öll þau viðskipti sem eiga sér stað milli Tímatals og viðskiptavina okkar, um kaup eða leigu á þeim vörum og þeirri þjónustu sem við bjóðum uppá. Þessir skilmálar eru ófrávíkjanlegir og gilda um öll þau atriði sem hér koma fram, nema að sérstaklega sé um annað samið með skriflegum hætti.

4. Hugverkaréttindi

Við leigu á hugbúnaði sem að Tímatal hefur skapað telst Tímatal vera eigandi og einkaréttarhafi að höfundarrétti og öllum þeim réttindum á sviði hugverka- og auðkennarréttar, hvort sem um er að ræða vörumerkjarrétt, hönnunarrétt, einkaleyfisrétt eða eignarétt að atvinnuleyndarmálum eða sérþekkingu sem tengist hugbúnaði Tímatals. Slíkt hið sama gildir um allar þær viðbætur sem Tímatal kann að bæta við til að bæta þjónustu okkar á meðan viðskiptasambandinu stendur.

Allt það sem fram kemur á vefsíðu Tímatals, og allur sá hugbúnaður sem þar liggur að baki, þar með talið útlitshönnun, ljósmyndir, texti, grafík og annað því líkt, fellur einnig undir höfundarréttar- og vörumerkjalög.

Innihald Tímatal.is er eign Tímatal, og er einungis notað samkvæmt okkar leyfi. Notendur og viðskiptavinir Tímatals mega aðeins sækja, afrita eða prenta upplýsingar og efni af Tímatal.is til sinna persónulegu nota í ófjárhagslegum tilgangi, allt í samræmi við II. kafla höfundarlaga.

Öll hugsanleg dreifing, endurútgáfa, eftirlíking eða rafræn afritun af innihaldi timatal.is eða hugbúnaðarins, að hluta eða í heild, er með öllu óheimil nema með skriflegu samþykki Tímatals.

5. Persónuvernd

Öryggi þinna persónulegu upplýsinga skiptir Tímatal miklu máli og því leggjum við áherslu á að vernda allar þær persónuupplýsingar sem við kunnum að geyma. Þar sem vinnsla fer fram á persónuupplýsingum telst Tímatal til ,,vinnsluaðila“ í samræmi við persónuverndarlög.

Persónuvernd Tímatals er þríþætt, og snýr þannig að viðskiptavinum okkar, notendum og síðan að þeim persónuupplýsingum sem að notendur kunna að veita okkur svo við getum efnt okkar skyldur gagnvart þeim samkvæmt viðskiptasamningi þessum.

Sem dæmi um upplýsingar sem við söfnum má nefna:

Viðskiptavinir

  • Nafn
  • Kennitala
  • Símanúmer

Notendur

  • Netfang
  • Nöfn starfsmanna
  • Opnunartímar
  • Frítímar starfsmanna
  • Bókaðir tímar starfsmanna
  • Þjónustutegundir

Ath. við geymum ekki lykilorð notenda.

Viðskiptavinir notenda

  • Nafn
  • Símanúmer
  • Heimsóknasaga
  • Athugasemdir og minnispunktar notenda

Að baki söfnun ofangreindra upplýsinga stendur ávallt lagalegur tilgangur svo Tímatal geti uppfyllt viðskiptasamning við viðskiptavini. Tímatal starfar að öllu leyti í samræmi við íslensk lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Endilega taktu þér tíma til þess að lesa persónuverndarstefnu Tímatals.

6. Aðgengi að Tímatali

Til þess að nota þjónustu Tímatals býr notandi til notandanafn (notandanafn er alltaf það sama og netfang notanda) og lykilorð. Framangreindar upplýsingar, ásamt öðrum sambærilegum upplýsingum, sem notendur Tímatals kunna að afhenda okkur, teljast til „aðgangsupplýsinga“ notenda.

Þá bera notendur einir ábyrgð á því að tryggja leynd lykilorða sinna, en starfsmenn Tímatals geta ekki lesið lykilorð notenda og geta því ekki veitt upplýsingar um þau þó að þau gleymist. Notendum er heimilt að veita aðilum upplýsingar af aðgangi sínum í reikningsgerðarlegum- eða bókhaldslegum tilgangi. Slíkt er þó ávallt gert á eigin ábyrgð.

Ef þú telur að annar aðili hafi komist yfir þínar aðgangsupplýsingar, skal hafa samband við starfsfólk Tímatals eins fljótt og auðið er, en í slíkum tilfellum mælum við einnig með að lykilorði sé breytt samstundis, en það er hægt að gera í stillingum.

Þá gerum við einnig þann fyrirvara að aðgangur notanda að þjónustu Tímatal gæti rofnað af ýmsum ástæðum, og ber Tímatal hvorki ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem notandi kann að vera af slíku.

7. Þjónusta Tímatals

Tímatal er tímabókunarkerfi í áskrift. Notendur greiða mánaðarlega gjald samkvæmt því sem kemur fram í verðskrá, sé ekki um annað samið skriflega. Notendur greiða einnig fyrir hvert sms-skeyti sem sent er í gegnum þjónustu Tímatals og samstarfsaðila. Verð á þeirri þjónustu er samkvæmt verðskrá eða öðrum skriflegum samningi aðila. Þar að auki býður Tímatal upp á aðra þjónustuliði, s.s bókunargátt á netinu og sérsniðnar áminningar, sem notendur greiða einnig fyrir gjald samkvæmt verðskrá.

Notendur þurfa ekki að greiða mánaðargjald fyrir fyrstu 14 dagana sem þeir nota kerfið nema að samið sé um annað, þetta köllum við prufutímabil. Að þessum tíma liðnum byrjar síðan hin mánaðarlega áskrift. Í kjölfarið er mánaðargjald alltaf rukkað fyrirfram.

Viðskiptavinir geta ákveðið að vera í kortaviðskiptum eða reikningsviðskiptum.

Kortaviðskipti

Notandi tengir gilt kreditkort við aðganginn sinn, en Tímatal notar kortaþjónustu Borgunar hf. til þess að athuga hvort kortið er gilt, og í framhaldinu rukka kort viðskiptavinar.

Hver mánaðarmót eftir að prufutímabil er liðið er samanlögð upphæð mánaðaráskriftar næsta mánaðar og sms-sendinga liðins mánaðar gjaldfærð af viðkomandi korti.

Ef kortið fæst ekki gjaldfært munum við reyna aftur á 4 daga fresti þangað til skuld fæst greidd. Fáist skuld ekki greidd eftir 3 tilraunir til innheimtu, áskiljum við okkur rétt til þess að loka á aðgang viðkomandi viðskiptavinar, og allra notanda hans. Áður en að gripið er til slíkra aðgerða verður reynt eftir fremsta megni að hafa samband við viðkomandi aðila.

Reikningsviðskipti

Viðskiptavinir geta þá einnig kosið reikningsviðskipti. Þá skráir viðskiptavinur einfaldlega kennitölu og upplýsingar um þann lögaðila sem hyggst greiða fyrir þjónustu Tímatals

Hver mánaðarmót eftir að prufutímabil er liðið stofnast krafa í heimabanka viðkomandi viðskiptamanns. Gjalddagi er 1. hvers mánaðar, og eindagi 20. hvers mánaðar. Reikningur er sendur í tölvupósti á netfang notanda eða annað netfang sem hann tekur fram að hann vilji fá reikninga senda á.

Sé krafan ekki greidd 14 dögum eftir eindaga áskiljum við okkur rétt til þess að loka aðgangi viðskiptamanns og allra þeirra notenda sem hann greiðir fyrir, þangað til að greiðsla berst.

8. Lok viðskipta

Hægt er að segja upp áskrift á Tímatal hvenær sem er, með því að fara inn á timatal.is/settings. Fyrri greiðslur, og þar með talið fyrsta greiðsla við staðfestingu á áskrift, fæst ekki endurgreitt.

Tímatal geymir persónuupplýsingar í 60 daga eftir lokun aðgangs, vilji viðskiptavinur hefja viðskipti að nýju. Að þessum 60 dögum liðnum verður öllum gögnum viðskiptavinar eytt, með tilliti til gildandi laga að hverju sinni og samningi milli aðila.

9. Þóknun Tímatals

Sú þóknun sem að Tímatal innheimtir fyrir veitta þjónustu er í samræmi við gildandi verðskrá að hverju sinni, og ábyrgjumst við að rétt verðskrá sé aðgengileg á heimasíðu okkar. Verðskrá Tímatal gildir ávallt, nema að samið sé skriflega um annað.

Nánar má lesa um það hvernig Tímatal rukkar þóknun sína í kafla 7 hér að ofan, sem fjallar um þjónustu Tímatals.

10. Tilkynningar til viðskiptavina

Tímatal mun, með samþykki viðskiptavina og notenda, senda með tölvupósti, eða tilkynningu á aðgangi notenda, upplýsingar um allar þær nýjungar sem kunna að bætast við núverandi hugbúnað.

Tímatal mun eftir fremsta megni tryggja að allar mikilvægar tilkynningar berist eins fljótt og auðið er, en ábyrgist með engum hætti að þær berist til viðkomandi eða að þær innihaldi álvalt nýjustu og/eða réttar upplýsingar.

Notandi samþykkir þá að sama skapi að Tímatal ber enga bótaskyldu vegna tilkynninga sem berast seint, eða alls ekki, vegna villu í efni þeirra eða ákvarðana sem að notandi, eða þriðji aðili, tekur eða tekur ekki vegna tilkynninga sem sendar eru.

11. Takmörkuð ábyrgð Tímatals

Tímatal ber enga ábyrgð vegna tjóns, hvorki beins né óbeins, sem kann að verða vegna bilunar í tölvubúnaði og/eða hugbúnaði fyrirtækisins eða notanda, eða af öðrum orsökum, sem kunna að valda því að upplýsingar eru ekki réttar, eða að notandi nái ekki að tengjast þjónustunni.

Tímatal er að sama skapi ábyrgðarlaust vegna tjóns eða óþæginda sem kann að verða, bæði beint eða óbeint, vegna allra þeirra hugsanlegu bilanna sem kunna að koma upp í endabúnaði, tenginu við internetið, eða þeim hugbúnaði sem nauðsynlegur er til tengingar við Tímatal, svo sem stýrikerfi notenda eða tölvukerfi þeirra, eða af örðum orsökum sem kunna að valda því að hugbúnaður Tímatals er ekki aðgengilegur.

Þá er Tímatal ábyrgðarlaust vegna tjóns eða óþæginda sem kann að verða, bæði beint eða óbeint, vegna vanþekkingar, misskilnings eða misnotkun á aðgengi notenda eða þriðja aðila. Tímatal ber að sama skapi enga ábyrgð á tjóni sem rekja má til ytri atburða eins og eldgosa eða stríða.

Tímatal er að sama skapi ekki bótaskylt vegna lögfræðikostnaðar vegna málsóknar, utan eða innan samninga, þrátt fyrir að Tímatal gæti hafa verið ljóst að bótakrafa væri fyrir hendi.

12. Lokun aðgangs

Tímatal hefur heimild til þess að grípa til allra þeirra hugsanlegu aðgerða sem teljast geta verið nauðsynlegar vegna brota gegn þessum skilmálum. Tímatal getur því einhliða lokað aðgangi notanda að öllu leyti.

Ef við verðum uppvís að misnotkun á hugbúnaði eða annarri þjónustu Tímatals, áskiljum við okkur einnig rétt til þess að loka aðgangi algerlega og ótímabundið. Í slíkum tilfellum áskiljum við okkur einnig rétt til þess að eyða gögnum notanda án samþykkis.

13. Varnarþing

Rísi ágreiningur um stofnun eða túlkun þessa notendasamnings eða einhverra ákvæða hans skal allur ágreiningur lúta íslenskum lögum og málinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur.